Samþykktir

1.gr. Heiti félagsins Félagið heitir Strandveiðifélag Íslands, félag um réttlæti í sjávarútvegi. Skammstöfun þess er STÍ. Enskt heiti félagsins er The Icelandic Association of Coastal Fishing. Ensk skammstöfun félagsins er IACF-IS. Aðsetur og varnarþing félagsins skal vera í Reykjavík. 

2. gr. Tilgangur og markmið Tilgangur félagsins er að standa vörð um og berjast fyrir rétti almennings til handfæraveiða við Íslandsstrendur og koma í veg fyrir mismunun í lögum um fiskveiðistjórnun sem brýtur í bága við stjórnarskrá landsins sem er staðfest alþjóðlega og innanlands.
Markmiðið er að stuðla að nauðsynlegum breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfi og núverandi kvótakerfi í átt að réttlæti fyrir alla þjóðina, umbótum á vísindalegum hafrannsóknum og veiðiráðgjöf, verndun hafsins og fiskistofna ásamt hagsmunum og réttindum íslenskra sjómanna.
Félagið vísar í álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá því í október 2007 þar sem kemur fram að íslensku lögin um stjórn fiskveiða brjóti í bága við 26. gr. Alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi um jafnrétti allra manna. Við vísum einnig í niðurstöðu Hæstaréttar frá árinu 1998 að fiskveiðistjórnarkerfið eins og það er uppbyggt er andstætt jafnréttisákvæðum stjórnarskrárinnar og ákvæðum um atvinnufrelsi. 

3. gr. Leiðir að markmiði félagsins
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með að koma opinberlega á framfæri málflutningi í ræðu og riti sem þjónar tilgangi félagsins. Með öflugri fræðslu og upplýsingagjöf til þingmanna, fólks í sveitarstjórnum, starfsfólks ráðuneyta, embættismanna og almennings um raunverulega stöðu mála.
Félagið mun leita allra mögulegra leiða til að koma boðskap félagsins á framfæri og hrinda markmiðum þess í framkvæmd, þ.m.t. en ekki eingöngu málsókn gegn íslenska ríkinu og stjórnsýslukærum gegn handhöfum löggjafar- og framkvæmdavalds sem samþykkja mismunun í sjávarútvegi, þrengja að strandveiðum, virða að vettugi kvótaþak í samræmi við núverandi lög um fiskveiðistjórnun, óvirða stjórnarskrá lýðveldisins o.fl. brot á íslenskum og alþjóðlegum samþykktum og lögum. Félagið hyggst leita liðsinnis alþjóðlegra stofnana og félaga um allan heim sem berjast fyrir sömu markmiðum. 

4. gr. Félagsaðild. Allir sem eru 16 ára og eldri og eru sammála tilgangi og markmiðum félagsins hafa rétt á aðild. Félagatal telst til viðkvæmra persónuupplýsinga og skal meðhöndlun þess vera í samræmi við landslög. Skráningar og úrsagnir skulu gilda frá tímasetningu staðfestingar á móttöku.

5. gr. Starfstímabil
Starfstímabil er almanaksárið. Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins árs. Aðeins skráðir félagsmenn mega taka þátt í aðalfundi. 

6. gr. Aðalfundur Aðalfund skal halda eigi síðar en 1. apríl ár hvert og skal boða til hans með þriggja vikna fyrirvara með sannanlegum og öruggum hætti. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Öll gögn fyrir aðalfund skulu berast til félagsmanna a.m.k. 10 dögum fyrir aðalfund. Þ.m.t. en ekki eingöngu ársskýrsla stjórnar, skoðaður ársreikningur félagsins, tillögur til lagabreytinga og framboð til stjórnar og varastjórnar. Tillögur til lagabreytinga og framboð til formanns, stjórnar og varastjórnar skulu berast til stjórnar félagsins a.m.k. tveimur vikum fyrir aðalfund félagsins. Einfaldur meirihluti viðstaddra félagsmanna ræður úrslitum mála fyrir utan lagabreytingar þar sem þarf aukinn meirihluta, 2/3 viðstaddra félagsmanna. Stjórn félagsins getur boðað til auka aðalfundar.
Á aðalfundi skal marka stefnu félagsins, skipulag og fjárreiður fyrir komandi starfsár. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir: 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara 2. Skýrsla stjórnar lögð fram 3. Reikningar lagðir fram til samþykktar 4. Lagabreytingar 5. Ákvörðun félagsgjalds 6. Kosning formanns og stjórnar 7. Kosning skoðunarmanna reikninga 

7.gr.
Stjórn félagsins Stjórn félagsins skal skipuð fimm félagsmönnum, formanni og fjórum meðstjórnendum. Formaður skal vera kjörinn sérstakri kosningu. Stjórnin skiptir með sér verkum og skal velja sér varaformann, ritara og gjaldkera. Einnig skal kjósa fimm varamenn. Kosningin skal vera leynileg. Einfaldur meirihluti þeirra sem mætir á aðalfund, ræður kjöri stjórnar. Formaður stjórnar skal kjörinn til eins árs í senn. Tveir stjórnarmenn skulu kjörnir til tveggja ára en tveir til eins árs í senn. Tveir skulu kjörnir í varastjórn til tveggja ára í senn en þrír til eins árs í senn. Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda en ber upplýsingaskyldu gagnvart félagsmönnum. Formaður stjórnar boðar til funda og skal fyrirvari vera a.m.k. ein vika. Varamenn mega sitja alla stjórnarfundi og eru þar með tillögurétt og fullt málfrelsi en ekki atkvæðarétt. Stjórn getur stofnað starfs- og undirnefndir og skal þá koma boðum til allra félagsmanna um tilgang nefndar, auglýsa eftir framboðum og efna til leynilegra kosninga um nefndarmenn. 10% félagsmanna getur krafist boðunar auka aðalfundar.

8.gr. Félagsgjöld og fjármögnun Ákvörðun um félagsgjald skal tekin á aðalfundi. Þau skulu vera hófleg. Félagsgjöld skulu innheimt árlega. Stjórn félagsins skal leita allra leiða til að tryggja fjármögnun starfs og málssókna til viðbótar við félagsgjöld. 

9. gr. Fjármál og rekstur Fjárhagstímabil félagsins er almanaksárið. Öllum hagnaði af starfsemi félagsins skal varið til starfs og sérfræðiaðstoðar við að ná fram tilgangi og markmiðum félagsins. Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar. Skoðunarmenn reikninga skulu kjörnir á aðalfundi félagsins.

10.gr.Slit félags Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi og þarf þá að tilkynna um tillögu um slit með auglýstri dagskrá aðalfundar. Kosning um slit félagsins skal vera leynileg og aðeins samþykkt með auknum meirihluta mættra félagsmanna á aðalfundi eða 3/4 mættra. Við félagsslit skal ráðstafa eða skipta eignum þess til þeirrar góðgerðarstarfsemi eða frjálsra félagasamtaka sem starfa í samræmi við tilgang og markmið félagsins.

11.gr. Bráðabirgðagrein
Boðun stofnfundar og skil á gögnum fyrir stofnfund er undanskilin 6.gr. stofnsamþykktar félagsins. 

Lög þessi voru samþykkt á stofnfundi félagsins sem haldinn var í gamla Stýrimannaskólanum að Öldugötu 23, 101 Reykjavík. Dagsetning: 5.mars 2022